Reviews

← Back to all posts
 • Fréttablaðið reviews Önnur Mósebók

  Flott framhald

  ★ ★ ★ ★

  Hljómsveitin Moses Hightower vakti verðskuldaða athygli með fyrstu plötunni sinni Búum til börn sem kom út fyrir tveimur árum. Tónlistin á henni var blanda af mjúkri og grúví sálartónlist og íslensku gæðapoppi. Svipuð lýsing getur vel átt við nýju plötuna, Aðra Mósebók. Á henni halda þeir félagar áfram að þróa þetta sérstaka poppafbrigði. Sem fyrr eru áhrifin frá sálartónlistinni augljós og sem fyrr gera vel skrifaðir textar á íslensku mikið fyrir heildarútkomuna. Áhrifin koma þó víðar að á nýju plötunni.

  Þetta er heilsteypt og flott plata. Það eru tíu lög á henni. Meirihluti þeirra er í þessum hæga og svala stíl sem einkennir lagið Stutt skref, sem hefur notið mikilla vinsælda undanfarnar vikur. Annars staðar er brugðið út af, t.d. í hinu kaflaskipta Margt á manninn lagt og í hinu fönkaða Góður í.

  Þó að Önnur Mósebók sé engin bylting frá síðustu plötu þá eru meðlimir Moses Hightower ekkert að hjakka í sama farinu. Þeir hafa lagt mikið í lagasmíðar og útsetningar. Platan hefur sterkt yfirbragð og rennur vel í gegn þegar maður spilar hana frá upphafi til enda, en hvert lag hefur sín sérkenni. Það er erfitt að taka einhver sérstök lög út sem bestu lögin.

  Önnur Mósebók er mjög jafngóð, en fyrrnefnd Stutt skref og Margt á manninn lagt, auk lagsins Inn um gluggann eru í uppáhaldi. Fjöldi gesta kemur við sögu á plötunni, slagverksleikarar, blásarar og bakraddasöngvarar, en flottar raddútsetningar eru eitt af einkennum plötunnar.

  Á heildina litið er Önnur Mósebók fyrirtaks plata. Maður var búinn að velta því fyrir sér hvaða leið hljómsveitin færi eftir hina frábæru Búum til börn og sú leið sem varð fyrir valinu, að þróa sérstaka poppblöndu fyrri plötunnar áfram, hefur skilað fínni útkomu.

  Niðurstaða: Önnur Mósebók gefur snilldarplötunni Búum til börn ekkert eftir.

  Trausti Júlíusson