Reviews

← Back to all posts
 • Morgunblaðið reviews Önnur Mósebók

  Fyrirheitna bandið

  ★ ★ ★ ★1/2

  Hljómsveitin Moses Hightower sendi fyrir tveimur árum frá sér fyrstu breiðskífuna, Búum til börn, og var sú fantagóð. Nú er önnur skífa komin og ekki síðri og ber hún þann skemmtilega titil Önnur Mósebók. Tónlist félaganna í Moses Hightower má kalla sálarskotið popp, ef einhverja skúffu þarf að finna henni, og flutningurinn fumlaus, jafnt söngur sem hljóðfæraleikur. Þá gefa bakraddir lögum hljómsveitarinnar afar skemmtilegan og einkennandi blæ, angurværar og hátt uppi.

  Platan byrjar á smellinum „Stutt skref“ sem hljómað hefur þónokkuð í útvarpi og er þeirrar gerðar að maður grípur það strax og syngur með. Hvert gæðalagið kemur svo á fætur öðru. „Tíu dropar“ er t.a.m. silkimjúkur óður til kaffibaunarinnar og textinn bráðfyndinn en heiðurinn af vel ortum lagatextum plötunnar eiga þeir Andri Ólafsson og Steingrímur Karl Teague. „Sú var tíð að sveik ég þig/og sá þar hvergi nærri strax að mér./(nei nei nei)/Tárvotur og titrandi/ég taldi mig geta snúið bakið við þér./(ég var grey)“ er ort um kaffilaust tímabil og munu eflaust margir hlustendur kannast við slíkar kvalir.

  Mjúkt grúvið sem einkenndi fyrstu plötu hljómsveitarinnar er vissulega til staðar á þeirri nýju en inn á milli er gefið í og daðrað við fönkið, t.d. í laginu „Góður í“ sem er eitt það allra skemmtilegasta á plötunni. Þá er brasilíska bossanova-stemningu einnig að finna, í laginu „Mannhöfin sjö“ þar sem sungið er um „stjaksetta ostbita“. Síðasta lag plötunnar, „Byrjar ekki vel“, er að vísu heldur dauft og hætt við að maður hoppi yfir það og yfir á fyrsta lag aftur.

  Það er greinilegt að mikil vinna hefur verið lögð í þessa plötu, vandað vel til verks í alla staði og tvíbrotið umslagið er þar engin undantekning, skemmtilega myndskreytt og blessunarlega laust við bæklinga, lagatextarnir fantagóðu einfaldlega ritaðir inn á spjöldin.

  Þeir félagar Andri, Daníel, Magnús og Steingrímur geta verið stoltir af Annarri Mósebók.

  Myndatexti: Afbragð - Önnur breiðskífa Moses Hightower er virkilega vel heppnuð.

  - Helgi Snær Sigurðsson