Reviews

← Back to all posts
 • Miðborgarpósturinn reviews Önnur Mósebók

  Með myrkur í sálinni

  ★ ★ ★ ★ ★

  Moses Hightower - Önnur Mósebók

  Record Records 2012

  Fyrstu lögin af Annarri Mósebók, annarri plötu Moses Hightower, fóru að heyrast á nýliðnu sumri, og það var megahittarinn Stutt skref sem fyrst fékk náð fyrir eyrum hlustenda. Í septembermánuði mátti vart þverfóta fyrir fólki frá fimm ára til fimmtugs sem raulaði nýtt topplag þeirra, Sjáum hvað setur. Þá var ljóst að eitthvað rosalegt var að gerast með þessa litlu sálarhljómsveit sem spilar tónlist sem enginn annar er að spila á Íslandi um þessar mundir.

  Það allra fyrsta sem maður tekur eftir er hvað búið er að nostra við hvert smáatriði á Annarri Mósebók. Manni finnst eins og það væri ekki hægt að breyta einni einustu nótu. Hljómur plötunnar, lífrænn þegar hornsveitin gefur í og kaldur og mystískur þegar hljóðgerflar fá að njóta sín, spannar heilmiklar víddir án þess að vera nokkurn tímann leitandi eða óeinbeittur. Ef maður hlustar á plötuna í heyrnartólum fær maður öll smáatriðin beint í hlust og loks er hvert slagverkssóló eða gítarpartur orðinn eins og órjúfanlegur hluti af heild. Hljómurinn inniheldur líka það rými sem tónlistin þarf á að halda til að hlustandinn sjálfur komist þar fyrir og samlagist tónlistinni.

  Því næst áttar maður sig á því að það eru ekki bara tónarnir, heldur líka textarnir sem eru í sama gæðaflokki. Hvert orð er þarna af ástæðu, og víðs fjarri sú tilfinning að textinn sé þarna til að syngja einhver orð við fínar laglínur laganna. Nei, þarna eru pælingar, stundum um hversdagsleg málefni eins og kaffi eða kokteilboð, en alltaf merkilegar pælingar og sumar meira að segja nokkuð djúpar. Þarna birtist sérstakur íslenskur hugmyndaheimur í textagerðinni. Það er íslenska stressið, íslenskur miðbær og íslenskt veður sem textahöfundum eru hugleikin. Þetta gætu í raun hæglega verið textar frá Spilverki þjóðanna, svo íslenskur bæjarbragur er þar á. Auk þess er mikil angurværð í gangi, og lögin sem leita frekar í mollið birta manni einnig angurværari myndir.

  Plötunni er svo hægt að skipta í tvennt á nokkra vegu: Hún er sálarplata eins og gömul og góð Stevie Wonder plata frá áttunda áratugnum, en með textum sem minna á íslenskan, tímalausan raunveruleika. Hún er dansvæn með rétt magn af grúví gíturum og synthum til að hægt sé að dilla sér, en samt með myrka og djúpa undirtóna. Hún fjallar um fólk sem fer í partý og er umkringt glaum og gleði, en er samt einmana og með myrkur í sál sinni. Hún inniheldur íslenska hnyttni eins og nýkeypta íspinna sem etast af þybbnum börnum og stjaksetta ostbita, en líka ljóðrænu sem skilar sér fullkomlega jafnvel hvort sem hún er sungin eða er texti á blaði, eins og textarnir við „Inn um gluggann“ og „Byrjar ekki vel“ bera vitni um.

  Ég held í rauninni að svona plata hafi aldrei komið út á Íslandi áður, og spái því að hennar verði minnst og í hana vitnað um ókomna tíð. Það eina sem ég hef um málið að segja er: Hvað gerir Moses Hightower næst? Ég hræðist það helst að þeir geri vart betri plötu, en hvað veit ég? Þeir eru jú bara rétt að byrja. Endilega reyniði að sjá sveitina á tónleikum líka, ef þess gefst kostur, því þar fær maður tónlistina beint í æð.

  - Ragnheiður Eiríksdóttir