Reviews

 • The Reykjavík Grapevine reviews Önnur Mósebók

  Woozy, funky, skilled romp through forty years of psychedelia, funk and soul.

  +

  There's a loose-limbed, off-kilter woozy magic about Moses Hightower that is matched only by the spacey arrangements and awesome production of an album which veers, grooves, sidles and struts in equal measure. Opener “Stutt skref” leans and lives much in the vein of Super Furry Animals, whilst the wonderful Rhodes-y atmosphere of “Tíu dropar” is psychedelic, lush and languid.

  This is superior stuff all round. Moses Hightower is an act full of musical talent as the near acid-jazz “Inn um gluggann” shows. The syncopated drumbeat works beautifully off a keyboard loop and throaty pads to frame the sotto-voce vocal which in turn gives way to sweeping, snaking woodwind. There's a hint of Bill Withers vs Prince here, too, particularly in “Góður í,” which is simply a funky treasure.

  Everything about this smooth, sparkly album sings of a special set of ideas delivered by a gifted bunch of musicians. Go find them, and go fall in love.

  - Joe Shooman

 • Fréttablaðið reviews Önnur Mósebók

  Flott framhald

  ★ ★ ★ ★

  Hljómsveitin Moses Hightower vakti verðskuldaða athygli með fyrstu plötunni sinni Búum til börn sem kom út fyrir tveimur árum. Tónlistin á henni var blanda af mjúkri og grúví sálartónlist og íslensku gæðapoppi. Svipuð lýsing getur vel átt við nýju plötuna, Aðra Mósebók. Á henni halda þeir félagar áfram að þróa þetta sérstaka poppafbrigði. Sem fyrr eru áhrifin frá sálartónlistinni augljós og sem fyrr gera vel skrifaðir textar á íslensku mikið fyrir heildarútkomuna. Áhrifin koma þó víðar að á nýju plötunni.

  Þetta er heilsteypt og flott plata. Það eru tíu lög á henni. Meirihluti þeirra er í þessum hæga og svala stíl sem einkennir lagið Stutt skref, sem hefur notið mikilla vinsælda undanfarnar vikur. Annars staðar er brugðið út af, t.d. í hinu kaflaskipta Margt á manninn lagt og í hinu fönkaða Góður í.

  Þó að Önnur Mósebók sé engin bylting frá síðustu plötu þá eru meðlimir Moses Hightower ekkert að hjakka í sama farinu. Þeir hafa lagt mikið í lagasmíðar og útsetningar. Platan hefur sterkt yfirbragð og rennur vel í gegn þegar maður spilar hana frá upphafi til enda, en hvert lag hefur sín sérkenni. Það er erfitt að taka einhver sérstök lög út sem bestu lögin.

  Önnur Mósebók er mjög jafngóð, en fyrrnefnd Stutt skref og Margt á manninn lagt, auk lagsins Inn um gluggann eru í uppáhaldi. Fjöldi gesta kemur við sögu á plötunni, slagverksleikarar, blásarar og bakraddasöngvarar, en flottar raddútsetningar eru eitt af einkennum plötunnar.

  Á heildina litið er Önnur Mósebók fyrirtaks plata. Maður var búinn að velta því fyrir sér hvaða leið hljómsveitin færi eftir hina frábæru Búum til börn og sú leið sem varð fyrir valinu, að þróa sérstaka poppblöndu fyrri plötunnar áfram, hefur skilað fínni útkomu.

  Niðurstaða: Önnur Mósebók gefur snilldarplötunni Búum til börn ekkert eftir.

  Trausti Júlíusson

 • Fréttatíminn reviews Önnur Mósebók

  Allt gengur upp

  ★ ★ ★ ★ ★

  Á annarri plötu Moses Hightower er listrænn poppþroski bandsins í blóma. Lögin tíu eru öll góð og sum algjörlega framúrskarandi. Hér er poppað og fönkað og menn taka áhættur í framvindu laga. Hin háa og silkimjúka söngrödd Steingríms minnir bæði á Curtis Mayfield og Sigurð Bjólu og þess vegna finnur maður stundum Curtis og Spilverks-keim í bland við dass af Radiohead. Blandan er þó alveg einstæð. Steingrímur og Andri, sem syngur líka, eiga frábæra spretti saman og sitt í hvoru lagi, hljóðfæraleikur er djúsí og pottþéttur, hversdagslegir textarnir fínir og barasta allt gengur upp í þrælskemmtilegri, léttri en stundum krefjandi poppplötu - bestu plötu ársins (til þessa).

  - Dr. Gunni

 • Morgunblaðið reviews Önnur Mósebók

  Fyrirheitna bandið

  ★ ★ ★ ★1/2

  Hljómsveitin Moses Hightower sendi fyrir tveimur árum frá sér fyrstu breiðskífuna, Búum til börn, og var sú fantagóð. Nú er önnur skífa komin og ekki síðri og ber hún þann skemmtilega titil Önnur Mósebók. Tónlist félaganna í Moses Hightower má kalla sálarskotið popp, ef einhverja skúffu þarf að finna henni, og flutningurinn fumlaus, jafnt söngur sem hljóðfæraleikur. Þá gefa bakraddir lögum hljómsveitarinnar afar skemmtilegan og einkennandi blæ, angurværar og hátt uppi.

  Platan byrjar á smellinum „Stutt skref“ sem hljómað hefur þónokkuð í útvarpi og er þeirrar gerðar að maður grípur það strax og syngur með. Hvert gæðalagið kemur svo á fætur öðru. „Tíu dropar“ er t.a.m. silkimjúkur óður til kaffibaunarinnar og textinn bráðfyndinn en heiðurinn af vel ortum lagatextum plötunnar eiga þeir Andri Ólafsson og Steingrímur Karl Teague. „Sú var tíð að sveik ég þig/og sá þar hvergi nærri strax að mér./(nei nei nei)/Tárvotur og titrandi/ég taldi mig geta snúið bakið við þér./(ég var grey)“ er ort um kaffilaust tímabil og munu eflaust margir hlustendur kannast við slíkar kvalir.

  Mjúkt grúvið sem einkenndi fyrstu plötu hljómsveitarinnar er vissulega til staðar á þeirri nýju en inn á milli er gefið í og daðrað við fönkið, t.d. í laginu „Góður í“ sem er eitt það allra skemmtilegasta á plötunni. Þá er brasilíska bossanova-stemningu einnig að finna, í laginu „Mannhöfin sjö“ þar sem sungið er um „stjaksetta ostbita“. Síðasta lag plötunnar, „Byrjar ekki vel“, er að vísu heldur dauft og hætt við að maður hoppi yfir það og yfir á fyrsta lag aftur.

  Það er greinilegt að mikil vinna hefur verið lögð í þessa plötu, vandað vel til verks í alla staði og tvíbrotið umslagið er þar engin undantekning, skemmtilega myndskreytt og blessunarlega laust við bæklinga, lagatextarnir fantagóðu einfaldlega ritaðir inn á spjöldin.

  Þeir félagar Andri, Daníel, Magnús og Steingrímur geta verið stoltir af Annarri Mósebók.

  Myndatexti: Afbragð - Önnur breiðskífa Moses Hightower er virkilega vel heppnuð.

  - Helgi Snær Sigurðsson

 • Miðborgarpósturinn reviews Önnur Mósebók

  Með myrkur í sálinni

  ★ ★ ★ ★ ★

  Moses Hightower - Önnur Mósebók

  Record Records 2012

  Fyrstu lögin af Annarri Mósebók, annarri plötu Moses Hightower, fóru að heyrast á nýliðnu sumri, og það var megahittarinn Stutt skref sem fyrst fékk náð fyrir eyrum hlustenda. Í septembermánuði mátti vart þverfóta fyrir fólki frá fimm ára til fimmtugs sem raulaði nýtt topplag þeirra, Sjáum hvað setur. Þá var ljóst að eitthvað rosalegt var að gerast með þessa litlu sálarhljómsveit sem spilar tónlist sem enginn annar er að spila á Íslandi um þessar mundir.

  Það allra fyrsta sem maður tekur eftir er hvað búið er að nostra við hvert smáatriði á Annarri Mósebók. Manni finnst eins og það væri ekki hægt að breyta einni einustu nótu. Hljómur plötunnar, lífrænn þegar hornsveitin gefur í og kaldur og mystískur þegar hljóðgerflar fá að njóta sín, spannar heilmiklar víddir án þess að vera nokkurn tímann leitandi eða óeinbeittur. Ef maður hlustar á plötuna í heyrnartólum fær maður öll smáatriðin beint í hlust og loks er hvert slagverkssóló eða gítarpartur orðinn eins og órjúfanlegur hluti af heild. Hljómurinn inniheldur líka það rými sem tónlistin þarf á að halda til að hlustandinn sjálfur komist þar fyrir og samlagist tónlistinni.

  Því næst áttar maður sig á því að það eru ekki bara tónarnir, heldur líka textarnir sem eru í sama gæðaflokki. Hvert orð er þarna af ástæðu, og víðs fjarri sú tilfinning að textinn sé þarna til að syngja einhver orð við fínar laglínur laganna. Nei, þarna eru pælingar, stundum um hversdagsleg málefni eins og kaffi eða kokteilboð, en alltaf merkilegar pælingar og sumar meira að segja nokkuð djúpar. Þarna birtist sérstakur íslenskur hugmyndaheimur í textagerðinni. Það er íslenska stressið, íslenskur miðbær og íslenskt veður sem textahöfundum eru hugleikin. Þetta gætu í raun hæglega verið textar frá Spilverki þjóðanna, svo íslenskur bæjarbragur er þar á. Auk þess er mikil angurværð í gangi, og lögin sem leita frekar í mollið birta manni einnig angurværari myndir.

  Plötunni er svo hægt að skipta í tvennt á nokkra vegu: Hún er sálarplata eins og gömul og góð Stevie Wonder plata frá áttunda áratugnum, en með textum sem minna á íslenskan, tímalausan raunveruleika. Hún er dansvæn með rétt magn af grúví gíturum og synthum til að hægt sé að dilla sér, en samt með myrka og djúpa undirtóna. Hún fjallar um fólk sem fer í partý og er umkringt glaum og gleði, en er samt einmana og með myrkur í sál sinni. Hún inniheldur íslenska hnyttni eins og nýkeypta íspinna sem etast af þybbnum börnum og stjaksetta ostbita, en líka ljóðrænu sem skilar sér fullkomlega jafnvel hvort sem hún er sungin eða er texti á blaði, eins og textarnir við „Inn um gluggann“ og „Byrjar ekki vel“ bera vitni um.

  Ég held í rauninni að svona plata hafi aldrei komið út á Íslandi áður, og spái því að hennar verði minnst og í hana vitnað um ókomna tíð. Það eina sem ég hef um málið að segja er: Hvað gerir Moses Hightower næst? Ég hræðist það helst að þeir geri vart betri plötu, en hvað veit ég? Þeir eru jú bara rétt að byrja. Endilega reyniði að sjá sveitina á tónleikum líka, ef þess gefst kostur, því þar fær maður tónlistina beint í æð.

  - Ragnheiður Eiríksdóttir