Lyrics

All lyrics by Andri Ólafsson & Steingrímur Karl Teague

Ellismellur (single)Fjallaloft

 1. Trúnó
 2. Fjallaloft
 3. Snefill
 4. Geim
 5. Feikn
 6. Skyttan
 7. Mjóddin
 8. Reynimelur
 9. Suma daga
 10. Ýmis mál
 11. Gætur


Önnur Mósebók

 1. Stutt skref
 2. Tíu dropar
 3. Inn um gluggann
 4. Sjáum hvað setur
 5. Margt á manninn lagt
 6. Háa c
 7. Mannhöfin sjö
 8. Góður í
 9. Troðinn snjór
 10. Byrjar ekki vel


Búum til börn

 1. 101 ósómi
 2. Búum til börn
 3. Vandratað
 4. Upp til að anda
 5. Alltígóðulagi
 6. Fer sem fer
 7. Örlítið lag
 8. Bílalest út úr bænum
 9. Bankabókarblús
 10. Moses Hightower

 

 Ellismellur

Að loknum lestri fréttanna
litgreini sokka og sameina:
Einn, tveir, áfram gakk!

Fylgist með fótabúnaði
í hans náttúrulega umhverfi
og sé að þeim fjölgar, stöku sokkunum.

Í grámann grannaskinnin falla eins og flís við rass,
fljúga ansi oft á Útvarp Saga class,
og fá sér af stút.

Og þegar öllu þeirra bauki er á botninn hvolft
blasir við að ekki gerist alltof oft
að þau kíki eitthvert út

og ég spyr mig:
Er ekki mál að linni?
Er ekki kominn tími til að skora gufuna á hólm?

Og sjá:
Vatteruð kona í kvartbuxum,
(hjarta, ertu fransbrauð?)
ég kikna í göngulimunum!
(fýsn, ertu hordauð?)

Ég sagði: „Kannski væri þjóðráð að við kíktum í
kaffibolla og mögulega kruðerí,
og rifjuðum upp gengna slóð?“

Hún sagði: „Á laugardögum líta barnabörnin við,
á mánudaginn læt ég skipta um mjaðmarlið
en annars er ég bara góð.“

Er ekki kominn tími til að tíminn komi til?

BACK TO TOP


Fjallaloft

1. TRÚNÓ

Þau sitja eftir
með auð sætispláss til beggja handa,
dreypandi sitt á hvað
á drykkjunum sem eftir standa.

„Alveg sjálfsagt,
ekki að minnast á.
Láttu vaða,
leystu skjóðu frá.
Ég segi engum!“

Svo kryfjast hjartans mál
og einhvers andadýr er panda.

Trúnó, trúnó, (kinn við) kinn við kinn:
Þú og ég og einhver vinur þinn.
Trúnó treina, trúnó viðhalda,
nóttin naumast orðin miðaldra.

Og við svo krumpuð bæði og breytt
því það er langt um liðið,
og hundruð hundaára
hafa á okkar daga drifið.

Hann ber af sér blak frá makanum.
Þau takast á: Hvort skuli saka um
þakið sem hrakar í rakanum?
„En ég makaði á það fram og til baka, ha?
Vertu ekki hengjandi smið fyrir bakara!“

BACK TO TOP


2. FJALLALOFT

Hvað er þessi blíða nema ruglun reyta
ljóss og logns sem varir alltof stutt?
Og hvað er þessi jökull nema bleyta
sem bráðnar innan skamms og gufar upp?

Lóuparið lúkkar vel á heiðinni og veit það.
Leyfist mér að játa
að ég er leiður á þeim strax?
Og löppum sínum óþolandi gæsir beita
á íronískan máta,
beggja vegna sólarlags.

Þú elskar fjöllin.
Þú elskar fjallaloft.
Þú ert ekki svöng, ekki þreytt,
fersk og leiðist ekki neitt.

Höglum hæfðar rjúpur ropa: „Hneit þar,“
á byssum gyrta böðla,
sem hrökkva þá í kút.
Jú, lóuparið lúkkar vel, en því er ekki að neita
að það var eitthvað annað sem dró mig hingað út.

BACK TO TOP


3. SNEFILL

Blika stjörnur bast og tvist,
urtubarn í útskersvist
er að lognast útaf,
og ég hafa það vil sem það hefur
því það er eins og er ekki snefill af mér sem að sefur.

Þér sem einnig liggur hér
vinnst létt að sofa.
Áir sátt í örmum mér
ásamt náladofa.

Ég er bit yfir því
hve þú talblöðruna í
getur teiknað zetur!

Og ég hafa það vil sem þú hefur
því það er eins og er ekki snefill af mér sem að sefur.
Já, ég hafa það vil sem þú hefur.

Að ég einn og aukreitis
norpi í vökuheimi
þýðir ekki aldeilis
að mig ekki dreymi.

Nei, ég hafa það vil sem þú hefur.

BACK TO TOP


4. GEIM

„Hæ aftur, manstu ekki eftir mér?“
fékk halastjarnan sagt við Júpíter.
„Býðurðu mér heim?
Mér sýnist við jú vera
bæði geim.“

„Nú renna á mig – kærust, trúðu mér –
grímur tvær,“ mælti þá Júpíter.
„Burtséð þó frá þeim
er ég vissulega
geim.“

Og á sama ári – manstu það? –
sér annar fundur átti líka stað
hjá jarðarbúum tveim
sem settust niður, hlið við hlið,
og horfðu út í kosmósið
sem kímdi móti þeim.

BACK TO TOP


5. FEIKN

Yfir dyraþrepið
ég ætla mér,
en óttast það sem bíður mín.

Verða ekki aftur tekin
orðin þau,
sem máttu jú alveg missa sín?

Og þau feikna ský
sem frussa oss á
mættu sér halda í
héðan í frá.

Þegar loks ég mæti
mænirðu á,
svo myrk á svip og dimm,

en glottir út í annað
eftir smá,
og gefur mér svo fimm.

BACK TO TOP


6. SKYTTAN

Ég hef ýmist farið
eða setið kyrr
eða fetað beggja bil þess.

En þú tókst loks af skarið
sem aldrei henti fyrr
og ekkert benti til þess.

Við erum ljóta parið:
ég loga af heift og pirri
og þú ornar þér við yl þess.

Að fanga í orðum, það er ekki til
í dæminu – þótt ég æfði mig
og þótt mig blóðlangi að gera því skil
skotinu sem hún hæfði mig.

Við beygjum okkur, buktum,
tvær snjáðar sálir, sneyptar,
fyrir duttlunganna veldi,

og orðhöggvumst og tuktum
hvort annað til, full heiftar
uns líða fer að kveldi,
en svo líður loks að kveldi.

Og þá lýsirðu þessum luktum
sem í þig eru greyptar
og undir eins ég þiðna allur innvortis
og er þarnæst sleginn eldi.

BACK TO TOP


7. MJÓDDIN

Á duggunni
velkjumst við og vindhviðurnar rugga henni.
Ég svæli í mig samloku í muggunni
og gubba henni.

Í bíóum
voðamennin valhoppa með hnífana um.
Ég horfi, en tékka á heila og hálfa tímanum
á símanum.

Já það er satt,
ég var heimakær úr hófi fram
en lét svo af þeim ósið.
Ég var týndur aumur einstæðingur
en svo sá ég ljósið.
Já, ég sá ljósið.

Í slyddunni
ég tók af okkur mynd og óvart eyddi henni.
Við nærðumst síðan næstum ótilneydd inni
í Mjóddinni.

Ég leit upp og sá ljósið.

Hann var heimakær úr hófi fram
(en lét svo af þeim ósið)!
Hann var týndur!
Ég var týndur aumur einstæðingur
en (en!) svo sá ég ljósið,
(já, hann sá ljósið!)
ég bæði segi og skrifa ljósið.

BACK TO TOP


8. REYNIMELUR

Ég vona að öllum heima heilsist vel,
– þau hafi það sem skást, –
nema þessum þarna sem þig elta röndum á
út Reynimel,
rangeygir af ást.

Guð veit að ég vil allflestum vel,
– vinarþel á nóg –
nema þessum þarna sem ég minntist á:
Þeir mega á Reynimel
koma sér í lóg.

Um dag þeir silfurtyngdir spjalla,
og veg,
og kannski skjallar einhver þig
ögn fallegar en ég.

Og þarna rís ein borgin enn,
ólöguleg og grá,
en heima skipta eflaust litum allir þeir
andans menn
er þig góna á.

BACK TO TOP


9. SUMA DAGA

Dag frá degi, stað úr stað
ýtum frá og leggjum að.
Kurl á flótta undan gröfum.

Allt er muldrað undir rós,
aldrei gefið stefnuljós,
ekkert letrað skýrum stöfum.

Suma daga siglir hjartað lygnan sjá,
en suma daga andar ósköp köldu.

Og á kvöldin, niðri á strönd
í limbó undir sjónarrönd fer sólin mín,
með réttu eða röngu.

Og einn daginn ber það að:
Tíminn knýr á – sér tekur aftur það
sem að fékkst að láni fyrir löngu.

Suma daga siglir hjartað lygnan sjá,
en suma daga stendur það í ströngu.

BACK TO TOP


10. ÝMIS MÁL

Þegar að þér steðja ýmis mál,
úlfúðleg og þver,
og allt virðist baklæst, stál í stál,
er stundaraflausn fáanleg hjá mér.

Það er saklaust við og við
og jafnvel borgar sig.

Þegar úti gerist ósköp svart,
og óvistlegt og kalt,
leystu undan húfu hárið bjart
svo ljómann af því leggi yfir allt.

BACK TO TOP


11. GÆTUR

Látið í té
með meiru
fegurð og fé
og fremur útstæð eyru
þér gæfan hefur.

Við höfum þann háttinn á,

ég þegi, þú segir frá
,
en veröldin sefur.

Svo tekurðu mig á taugum
þegar við tekur þögn,

þú dokar við ögn

og með órætt stemmdum augum

mér gætur gefur.

BACK TO TOP

 Önnur Mósebók

1. STUTT SKREF

Þú ætlar kannski að stikla
á stóru og fara greitt,
horfir ekki aftur,
enda hræðistu ekki neitt.

En ef þér skrikar fótur
er sárara að falla við
en ef þú hefðir hægt á þér
og skoðað betur malbikið.

Taktu stutt skref,
vertu ekki að flýta þér.
Það liggur lítið á
svo taktu stutt skref
og sjáðu bara hvernig fer.

Taktu stutt skref,
vertu ekki að flýta þér.
Það liggur ekkert á
svo taktu stutt skref
og farðu ekki framúr þér.

Eitt er að vita,
annað að hafa séð,
dregið að sér andann
og slegið taktinn með.

Hjáleiðin er tímafrek
en það er breitt bil
á milli þess að lifa
og þess að vera bara til.

BACK TO TOP


2. TÍU DROPAR

Seytla þú í svörtum tárum
síunni frá.
Hversdagsamstri og hjartasárum
vinnur þú á,
bægir þú frá.

Blessuð alla tíð sé baunin þín,
brennd og ilmandi,
sem að alla leið frá Eþíópí
barst hér að landi
og einkum til mín.

Sú var tíð að sveik ég þig
og sá þar hvergi nærri strax að mér.
(nei nei nei)
Tárvotur og titrandi
ég taldi mig geta snúið baki við þér,
(ég var grey)

uns fegurðin, hamingjan,
í sannleika sagt gjörvöll tilveran,
spegluðust í svartri brákinni,
í þér.

Uns hamingjan, fegurðin,
í sannleika sagt allur heimurinn,
spegluðust í svartri brákinni,
í þér.

BACK TO TOP


3. INN UM GLUGGANN

Utan gluggans undir súð
götuljósin lýsa upp næstu þök
og ekki gott að segja
hvort hann hafi vakað heila nótt
eða bara fáein andartök.

Nætursvalinn ber með sér
bæjarklið sem hverfur brátt
en hvað varðar þann um slíka
ógnarsmáa hluti utanfrá
sem á svo ósköp stirt
um andardrátt?

Og stjörnur þótt eygi hann
auðnast þeim trauðla að hugga hann.
Né heldur, tært það þó teygi hann,
tunglsljósinu inn um gluggann.

Fyrr um kvöldið höfðu þau
hugsað með sér eins og áður oft
að ekkert geti verkað innvortis
öllu heilnæmara en næturloft.

BACK TO TOP


4. SJÁUM HVAÐ SETUR

Því er erfitt að trúa
að við sátum hér síðast í haust.
Núna hangir sólin á fótum
að því er virðist endalaust.

Sólþyrstir stúdentar,
kappklæddir túristar,
heilsast á vegi förnum.
Nýkeyptir íspinnar
svitna og örvænta
og etast af þybbnum börnum.

Og sama hvað amaði að
þarna þegar við kvöddumst
klæðir sólskinið þig sífellt betur.
Dokum hér við
meðan dagsbirtan endist
og sjáum hvað setur.

Því er erfitt að gleyma
sem gerðist hér síðasta haust.
Er það nema von
að ég tali svolítið samhengislaust?

Miðbæjarmömmurnar
dröslast með kerrurnar
daglangt og dreypa á mokka.
Prúðbúnir mormónar,
þræðandi göturnar,
bjóða af sér góðan þokka.

BACK TO TOP


5. MARGT Á MANNINN LAGT

Varla hefur neinum neitt
náð að verða eins og mér
jafn ákaflega þungt og þreytt
og þessi litla vísa hér.

Ambögur og ofstuðlar
alveg ná mér upp í kok.
Froðusnakk og fánýtt sprok
frussast úr mér allsstaðar.

Það er margt satt ósagt enn
og margt á manninn lagt,
ójá.

Dagurinn í duftið laut
og draumurinn um skrifað blað.
Bragarsmíð er bannsett þraut,
bölva mátt þér upp á það.

Setningarnar sitt á hvað
synda um á tundri og tjá.
Það er margt satt ósagt enn
og margt á manninn lagt,
ójá.

Svo kemur kvöldsólin.
Hringi hnitar hnötturinn um hana.
Hennar mildi er margsönnuð;
hún er mjög vel hönnuð.

Aumur, tregur, eirðarlaus,
aðframkominn, lafmóður.
Innri verund öll á haus.
Illur, beygður, morðóður.

Eymd og skömm og argaþras
ólm mig vilja fletta og flá.
Það er margt satt ósagt enn
og margt á manninn lagt,
ójá.

BACK TO TOP


6. HÁA C

Neyðir sig, í tré,
nývaknaður þröstur
upp á háa c
og heldur því.

Þegar bærinn er
enn að klára úr fyrsta bolla
og teygja úr sér
legg ég hann í.

Úti sækir mannmergðin að mér
rétt eins og háflóðið að auðri strönd.
Og ég sé að eins og gengur
ferðast sumir einir,
aðrir hönd í hönd.

Kvölds ég bregð mér frá,
skottast kannski út
og jafnvel fæ mér smá
í tá – (já já) það má.

Úti sækir mannmergðin að mér
rétt eins og háflóðið að auðri strönd.
Og ég sé að eins og gengur
ferðast sumir einir,
aðrir hönd í hönd.

Og þó að það sé sárt
þá fer ég ekki af því
að eina hönd sé umfram aðrar
gott að halda í.

En þegar sólin sest
geri ég það sem ég geri manna best.
(Horfi á Lé á DVD,
bara ég og Olivier)

Undanfarið ertu furðu fátíð.
Er fáni okkar hífður hálfvegis að húni?
Þarf ég þá að hugsa bara um þig í þátíð
eins og næturvaktina í Nóatúni?

Því ertu svona fjarska fátíð?

BACK TO TOP


7. MANNHÖFIN SJÖ

Stórum af bökkum
stara mig á
stjaksettir ostbitar.

Láttu þig reka
lengst inn í sal.
Leitaðu að mér þar.

Ég þarf svo taflaust
traustgerðan arm
til þess að styðjast við.

Skildu mig ekki
eftir án þín
innanum þetta lið.

Ýtum úr vör
út á mannhöfin sjö.

BACK TO TOP


8. GÓÐUR Í

Við hengjum hattana upp,
það vekur aðdáun og eftirtekt.
Að hafa dýrðlegt hár
er bæði torsótt verk
og afar tímafrekt.

Það er í loftinu:
við stefnum hraðbyri
í eitthvað stórkostlegt.

Nei, kemur ekki til greina.
Nei, ég fer ekki heim.

Á þessum eina stað
telst ég til framámanna
og frumkvöðla
og það sem fer hér fram
er jafnan ódauðlegt
og afar umtalað.

Ég sel kvikmyndir um hvali
með þýsku tali, og sauðfé,
lunda og seli steypta í pólýúretan,
en á föstudögum dansa ég
á fínu skónum
og skemmti mér mjög vel
eins og faðir Abraham.

Það er ljóst að ég er óður í
að fá að gera það sem ég er góður í.
Já, það er ljóst að ég er óður í
að gera það sem ég er góður í.

BACK TO TOP


9. TROÐINN SNJÓR

Þú finnur varla nokkurn stað,
nokkurn blett sem bragð er að,
sem ekki hefur einhver snert
og jafnvel gert að sínum.

Ef þig rænir hugarró
að troða bara troðinn snjó,
mundu að enginn, fyrr en nú,
markað hefur sömu spor og þú.

Með hverjum degi og hverri frétt,
hverri bók sem færðu flett,
þú klöngrast upp um fjarlæg fjöll
en finnur enga nýjamjöll.

Ef þig rænir hugarró
að troða bara troðinn snjó,
mundu að enginn, fyrr og nú,
markar viðlík spor og þú.

BACK TO TOP


10. BYRJAR EKKI VEL

Það byrjar ekki vel,
ekki alveg eftir bókinni.

Það byrjar ekki vel
en það er óbitið úr nálinni
og ég hef fulla trú á að nú
bíti á.

En ef það bítur á,
sem gæti alveg hent,
hvað gerum við þá?

Það fer mér ekki vel
að farast svona úr áhyggjum.

Það fer mér ekki vel
að finna til í iljunum,
samt geng ég í hring eftir hring
og bíð.

BACK TO TOP

 Búum til börn

1. 101 ÓSÓMI

Gæfan er svo fallvölt
og gleðin er svo naum.
Veröldin er grimm
og óárennileg.

Hamingjan er stopul,
mannskepnan er aum,
veðráttan er vond
og verstur allra er ég

en lítum framhjá því.
Þá held ég ekkert mæli móti því,
ekkert sem mig rekur minni í,
ekki neitt,
að slaka aðeins á
þó að veröldin sé fjandsamleg.
Við skulum taka lítinn Laugaveg,
ertu með?

Ástin er svo harðhent,
það hendir okkur flest
og virkilega grátlegt
hvernig stundum fer.

Já, gæfan er oft fallvölt
og veröldin svo grimm
en mér sýnist hún samt skárri
á rúntinum með þér.

BACK TO TOP


2. BÚUM TIL BÖRN

Það er enginn vafi, eitthvað vantar.
Ég held þú vitir hvað það er
því þú veist að við eigum ekki heima
úti í horni ein og sér.

Lofðu mér að liðka fyrir,
látum okkur líða vel.

Ég er ekki bara að hugsa um yðar einlægan,
það er ekki það sem vakir fyrir mér.

Búum til börn.

Sumir segja að eitt sé alltof mikið
en sjálfur fæ ég aldrei nóg.
Ég lofa að blessun eykst með barni hverju.
Berum ávöxt, verum frjó.

BACK TO TOP


3. VANDRATAÐ

Ég má ekki til þess hugsa að þú hírist þarna ein.
„Hvernig ætli viðri“, velti ég lengi fyrir mér
en spái undir niðri auknum hlýindum hjá þér.

Þegar nóttin er næstum búin
og orðið vandratað heim til mín,
vegir liggja til allra átta
en lognið blæs mér í átt til þín.

Burt úr miðbæjarmyrkum sundum,
burt frá húsum með harða skel
í bjarta, breiða götu þar sem
ljósastaurarnir lykta vel.

Ég spyr eftir langa göngu: „Hef ég gengið til góðs?“
Ég vona að þú vaknir og viljir opna fyrir mér.
Ég veit ekki hvað ég geri ef ég finn læstar dyr hjá þér.

BACK TO TOP
 


4. UPP TIL AÐ ANDA

Ég kafa í mannhafi,
ég er perlukafari.
Ef lungun í mér brenna
syndi ég til hennar

eins og korktappi sem þeytist
upp úr sokknu flöskuskeyti,
eins og laus björgunarhringur,
eins og loftbóla sem springur,

og við förum upp til að anda.

Ég er blautur inn að beini,
ég hef velt við hverjum steini,
en ég vona að ég strandi
ekki einn á þurru landi.

BACK TO TOP


5. ALLTÍGÓÐULAGI

Afsakið, má ég segja nokkur orð?
Þó ég sé ekki vanur að trana mér fram
þá get ég látið mig hafa það
í þeim tilgangi að koma að
að á dæmigerðum degi
er ég í meira stuði en hrökkáll,
handsterkari en Jón Páll,
hættulega viðsjáll – það er ég.

Hver?
Skírnarnafn Steingrímur,
ættarnafn Teague.
Fagmannleg þjónusta og áhrifarík.
Takmarkað framboð en eftirspurn slík
að röðin nær út fyrir Stór-Reykjavík

...og það er alltígóðulagi með dæmigerðan dag.

Ég kann á dömunum handtökin:
Ég fæ öll síðustu rólóin.
Kaldastur jafningja klakanum á,
eitraðri og sætari en asesúlfam-k.

Já, þetta er dæmigerður dagur:
eitt núll, stöngin inn.
Þú veist að ég er aðalsykurpabbinn þinn.

BACK TO TOP


6. FER SEM FER

Þú ert að leggja í lítið ferðalag.
Þú ert að flytjast búferlum til framtíðar.
Það var mesta þarfaþing,
það var þörfust útrétting – og er.

Hér er lítið sannleikskorn frá mér,
ekki efast um það sem ég segi þér:
Líttu yfir genginn veg,
tilveran var stórkostleg – og er.

Og því fer sem fer
– kannski hefðirðu átt að fara fyrr
og því fer sem fer.
– betur staðið upp en setið kyrr
Fer sem fer sem fer.

Þú stikar gegnum hvítan kafaldsbyl
í átt að sætu blankalogni og sólaryl
og best af öllu er vissan að
þú loksins lagður sért af stað.

BACK TO TOP


7. ÖRLÍTIÐ LAG

Ég ætlaði að skrifa bréf
en ég er ekki með neinar hendur.
Þá liggur beint við að raula smá,
ég bið þig að hlýða á

örlítið lag frá mér til þín.

Það lætur ekki mikið yfir sér
en ég vona samt að þú hlustir.
Þó að ég kveði ekki dýrt
held ég að erindið sé skýrt.

Mér var innrætt sem ungum dreng
aldrei að segja aldrei.
Höfum það lokaorðin hér,
þú ert með númerið hjá mér.

BACK TO TOP
 


8. BÍLALEST ÚT ÚR BÆNUM

Í borginni standa göturnar hálfauðar
og ráðhúsið það húkir hnípið,
alltof stórt en pasturslítið,
endurnar sjálfdauðar

og bæjarstarfsmenn læðast þöglir um í keng
og helgarfeður teyma helgarbörn í spreng.

Er ekki kominn tími á að bregða sér frá
gefa sér tíma og hræra í smá
bílalest út úr bænum
– héðan í einum grænum?

Er ekki kominn tími á að bregða sér frá
fara og reyna að slaka aðeins á
í bílalest út úr bænum
– með blakandi tungu í blænum?

Við þjóðveginn standa kindurnar lifaðar.
Þær mæna brostnum bænaraugum,
líkar skýjum eða draugum,
ætli þær vilji far?

Og um í sólskininu sveima flugurnar,
þær leggja kollhúfur og bjóða góðan dag.

Á hóflegum hraða ég vil fá að fara.
Þar líður mér best, þar kann ég við flest allt
og slaka á.

Uppspretta er yndis alla leið útvarpið í sjálfrennireið.

BACK TO TOP


9. BANKABÓKARBLÚS

Bankabókin mín geymdi um skeið
myndarlegan plús
en nú syng ég minn
bankabókarblús.

Útibúið mitt veitir mér vel:
Kalda kaffilús
er ég kem og syng
bankabókarblús.

Því er ver, því er ver,
en nú er galtóm bókin hjá mér
svo þú veist, já þú veist vinur minn,
þú mátt leggja þar inn.

Kæru félagar, gefið mér pláss,
pínu frið og ró
meðan syrgi ég
– bankabókin dó.

BACK TO TOP


10. MOSES HIGHTOWER

Gúmmí skrikar á malbiki um dimma nótt,
borgin er böðuð rauðum bjarma.
Taktu vara á þér, myrki Móses hér í hverfið mættur er
til að hefna lítilmagnans harma.

Hann fellir aldrei tár, er tveggja metra hár
og ótal tungumál hann talar bæði og ritar upp á tíu.
Já, taktu vara á þér, myrki Móses hér í hverfið mættur er
og réttlætið mun ríkja hér að nýju.

Móses, já myrki Móses,
já mildi Móses stígur karlmannlegan dans.
Móses, já myrki Móses:
draumur kvenna og martröð þorparans.

BACK TO TOP